fimmtudagur, desember 05, 2013

Smjör með skeið

Nammmmmmm

þriðjudagur, febrúar 19, 2013

Hekla spekingur

Á föstudaginn var ekkert sem dró athyglina frá Heklu og hún talaði mikið og var skemmtileg. Hún var að vorkenna pabba sínum sem hafði bara stundina okkar á sunnudögum og Tomma og Jenna á mánudögum þegar hann var 7 ára Hér kemur eitt samtalið Hekla: Aumingja pabbi bara barnasjónvarp á sunnudögum og mánudögum amma: Já og svo voru engir diskar Hekla: Jáá voru engir diskar þá borðuðu þið af laufblöðum eða settuð þið matinn beint á borðið amma: Neiiiiiiiii, ég meinti tölvudiska og efni sem hægt er að skoða á skjá Hekla: gott amma að þið áttuð diska Síðan gat hún rætt lengi um hvernig það væri ef maður ætti ekki diska til að borða af og hvort þá þyrfti að safna laufblöðum á haustin.

laugardagur, nóvember 17, 2012

Næturvaktin - síðasta sería búin?

Jæja, þá er Þórunn Birna búin með fyrstu 2 vikurnar í þjónustustoppi. Þetta fór allt vel af stað og hún hætti að vakna nema 2-4x á nóttu eftir fyrstu 2 næturnar. Það kom samt einhver óværð í hana um síðustu helgi og á þriðjudagsnóttu sváfum við feðginin bara 2 klst alla nóttina - þetta kallaði á gamalkunnug ráð eins og lazy-boy rugg og barnavagnasvefn í kjallaranum. Litla greindist svo með þvagfærasýkingu eftir að hafa skorað í 3 einkennum af 5, órói, uppköst og ... eitthvað sem ég man ekki :)

 Eftir fyrstu 3 pensilínskammtana er allt fallið í ljúfa löð - hún svaf í nótt frá 20:30 - 6:30 með 3 "rumskum" - en fór ekkert upp úr rúminu í þessar 10 klst. Húrra fyrir því! :)

 Annars tókum við upp á því að gefa Loga smá "break" með það að koma upp í. Okkur datt í hug hvort að það gæti verið að valda e-i vanlíðan að hann fengi ekki lengur að vera litla barnið og koma uppí. Hvort e-r væri búin að stela þeim forréttindum af honum? Ég veit ekki hvort það er þetta eða 4ára afmælið í vikunni, en hann hefur ekki tekið öskurkast eftir fyrsta kvöldið sem hann kom upp í. Hann verður hugsanlega að fá að taka nætur-aðskilnaðinn við foreldra sína á sínum hraða, jafnvel þó við Helga verðum stundum að láta okkur duga 20 cm rúmkant hluta nætur :)

sunnudagur, október 28, 2012

Næturvaktin - Sería 2 - Þjónustustopp :)

Jæja, nú á fimmtudaginn var skipt um vaktmann á næturvakt Þórunnar Birnu. Helga hefur staðið vaktina fyrstu 8 mánuðina og krílið var farið að nýta sér gjöfulleika móðurinnar 5-8 sinnum á nóttu ... og þá þótti okkur nóg um. Helga flutti inn í herbergið hans Loga Þórs á fimmtudagskvöldið og ég færði mig yfir á næturvaktina hægra megin í rúminu. Fyrsta nóttin gekk framar vonum, það var drama kl 01.00 þegar drottningin fékk ekki sömu þjónustu og hún var vön. Með smá söng og jingles úr barna-öpppunum á símunum sofnaði hún loksins og vaknaði bara kl 4 og 5.30 og fékk þá rugg í svefn. Við fórum svo á fætur um 6 leytið á föstudagsmorgun til að gera skilin skýr á milli dags og nætur. Önnur nóttin gekk aðeins betur og nú á sunnudagsmorgni, eftir nótt nr 3 erum við feðginin bæði nokkuð úthvíld, eftir minniháttar rumsk kl 2 og 5, fórum við á fætur kl 7.30. Mamman sefur enn í herberginu hans Loga eftir 11 klst ... minna má það víst ekki vera eftir 8 mánaða næturvakt :)

laugardagur, september 29, 2012

Fyrsta tönnslan!

....kíkti upp í nótt.  Kunnulegt hljóðið þegar skeið er bankað í tönnslu var framleitt hérna í stofunni á B52 af stoltum foreldrum.  Illa sofnum foreldrum reyndar því heilnáttarsvefninn virðiast hafa verið einstakt tilvik :)

miðvikudagur, september 26, 2012

7 mánaða kippur

Jæja, þá er Þórunn orðin 7 mánaða.  Það er eins og hún hafi verið að bíða eftir þessum áfanga, því 23. september byrjaði hún að reisa sig upp á 4 fætur og svo lyfti hún rassinum og stóð í "brú" eins og ekkert væri eðlilegra.  Þegar svo hún var komin inn í rúm um kvöldið, reif hún sig upp á rimlunum og stóð stolt í rúmkantinum eins og ekkert væri sjálfsagðara.  Ég rétt náði að rífa upp símann og smella þessari mynd af krílinu til að merkja áfangann.  Það hefur ýmislegt fleira gerst síðustu 3 sólarhringana, hún er orðin mömmusjúk :) ... sem er ekkert frábært því hún hefur tekið upp væl þegar mamma hennar hverfur úr augsýn á daginn þegar þær mæðgur eru tvær heima.   Hún hefur líka orðið smá feimin við annað fólk, eitthvað sem við höfum ekki séð áður.  

Önnur og merkilegri breyting varð líka síðustu nótt, þegar hún svaf frá kl 01 til kl 7 í morgun.  Síðustu mánuði hefur hún verið að drekka 2-3svar á þessu tímabili sem hefur gert móðursvefninn anzzzzzzzzz... i slitróttan.  Síðustu 3 daga hefur þetta verið að smábreytast og svo toppaði hún þetta í nótt með þessum glæsilega 6 tíma spretti sem á sér ekki fordæmi í 7 mánaða sögu prinsessunnar af Birtingakvísl :)   Hún hefur kannski verið farin að finna á sér að við vorum að skipuleggja "afmömmun" á næturna ... 

2 tönslur um það bil að kíkja upp  .... farið að móta fyrir þeim í neðri góm :)

Reiknihaus

Hekla María kemur foreldrum sínum á óvart á hverjum degi þessa dagana, þó það falli stundum í skuggann af litlu systur, þá eru oft alveg ótrúlegir hlutir að gerast.  Hún er komin með æði fyrir stærðfræði, og nýtir allan sinn frítíma í að reikna.  Stundum gengur þetta lengra en góðu hófi gegnir.  Í kvöld bönkuðu 3 bestu vinkonurnar til að draga hana út í eina krónu - btw ...einakrónu-straurinn er fyrir framan eldhúsgluggann hjá okkur - rifjar upp gamla tíma í Laxakvíslinni :)

Alla vega, Hekla neitaði að yfirgefa stærðfræðina því hún er búinn að setja sér takmark að reikna 10 bls í dag, 10 bls á morgun og 7 bls á föstudag, því þá er þessi reiknisbók búin.  Hún sat s.s. áfram að reikna við eldhúsborðið, fullkomlega einbeitt, þó stuðið á stæðinu færi ekki framhjá neinum í hverfinu.  Þegar vinkonurnar komu í annað skipti og grátbáðu hana um að koma út að leika, fannst reiknimeistaranum í lagi að yfirgefa tölurnar og snúa sér að hlaupum og öskrum úti í kvöldkyrrðinni :)  

Annars er dagskráin orðin þétt - fimleikar þrisvar í viku og tónlistarskóli 1x  ... sem færir okkur foreldrana, aðallega Helgu, inn í fyrsta fasa af skutltímabili sem stendur líklega næstu 10 árin :)

Myndin var tekin þegar við fórum í sveitina um síðustu helgi og áttum frábæran "leikjadag" áður en við brunuðum í bæinn til að koma Loga á fimleikaæfingu :)

"Já, ok gamli"



Logi Þór hefur verið í s-inu sínu síðustu daga. Hann er að vaxa upp í hlutverkið að vera í elsta hóp á leikskólanum, grænu deildinni. Þetta kallar eflaust á allskonar flækjur og iðulega þurfa allir að taka út extra orku við að díla við reiðisköst sem hann lætur stundum vaða ef planið hentar ekki hans skipulagi. Yfirleitt gengur þetta nú fljótt yfir og hann kemur smá stund með viðkvæðinu "ég var bara að grínast" ... eða "ég var bara að ruglast" ... og allt er gleymt og grafið.

 Systur hans eru að taka smá athygli þessa dagana og hann dettur soldið á milli í planinu en nú er stefnan að bæta úr því og við feðgarnir áttum flotta sundferð í Grafarvoginn áðan, drengurinn á örugglega eftir að eiga feril í lauginn af einhverju tagi - hann er svo náttúrulega í jafnvægi í lauginni ... alveg slakur.

 Reyndar er fótboltinn líka að kikka all svakalega inn hjá honum og golfsveiflan að ná nýjum hæðum. Hann toppaði í golfinu þegar hann tíaði upp á "tívolínu" (hann kallar tí .. tívolí) og nelgdi með hybrid kylfunni hennar Heklu í bílskúrsvegginn og svo beint í höfuðhæð í áttina að mér svo ég rétt náði að beygja mig undan. 

Gullmolarnir hrynja út úr honum og nú síðast í kvöld þegar ég sagði honum að fara nú niður og klára fiskibollurnar áður en matartíminn væri búinn ... þá stóð drengurinn letilega upp úr sjónvarpssófanum, rölti sér að stiganum og sagði með mikilli umhyggju... "Já ok gamli minn" :)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Fyrsta flóttatilraun - check!

Í dag er fyrsti leikskóladagurinn hjá Loga Þór eftir sumarfrí og því kannski tímaflís til að skrifa smá. Tilefnið var s.s. það að Þórunn Birna, tæplega 6 mánaða var kominn í meters fjarlægt frá leikteppinu sínu þegar ég leit upp frá kaffinu. Hún er rétt í þessum skrifuðu orðum að klára fyrstu flóttatilraunina af leikteppinu góða. Það hefur svo sem stefnt í þetta síðustu vikurnar, en núna er hún komin á fleygiferð á línolíudúknum góða. Annars braggast Þórunn Birna rosalega vel (er að átta mig á að það er fokið í flest skjól fyrir sérhljóða í upphafsstöfum í þessari fjölskyldu) ... þyngist vel en er farinn að drekka ansi oft á næturna, sem gerir það að verkum að við förum að grafa í blogginu til að finna hvaða aðferðum var beitt á eldri systkini hennar í þessum aðstæðum :) Hekla María er á skautanámskeiði þessa vikuna, búin að fara á golfnámskeið hjá GKG og leikjanámskeið í félagsmiðstöðinni. Allt heppnaðist þetta frábærlega og svo byrjar 7 ára bekkurinn í næstu viku.